144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:27]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ljóðaflutninginn. Við erum hér nokkur sem ég veit að höfum afskaplega gaman af slíku.

Hvað verður um rammaáætlun eftir því hver er við stjórn? Það er nefnilega málið. Ég held að við höfum svarað því ágætlega, stjórnarandstaðan, þegar við höfum komið í pontu og flutt okkar mál, hvort sem við höfum reynt að útskýra afstöðu okkar í gegnum fundarstjórn forseta eða í ræðum.

Við mundum örugglega, ef við vildum svo, fara í hið pólitíska ferli, setja sem mest í vernd, bæði ég og hv. þingmaður sem mig spurði. En ég held að við séum bæði þannig innstillt að við berum virðingu fyrir því ferli sem við samþykktum hér á síðasta kjörtímabili, þ.e. rammáætlunarferlinu, og munum þar af leiðandi lúta í gras ef okkur þykir svo varðandi þær ákvarðanir eða þær tillögur sem þaðan koma. Þegar búið er fara í gegnum hið faglega mat, þar sem þeir sem betur þekkja til en við og eru til þess bærir eru búnir að taka ákvörðun, þá lútum við því, (Forseti hringir.) en gerum þetta ekki eins og okkur hentar þá og þegar.