144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:40]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég er næstur á mælendaskrá, en ef fram fer sem horfir þá lýk ég ræðunni um og upp úr miðnætti og andsvör mundu teygja sig fram yfir það. Þó að maður sé auðvitað búinn að safna saman ljóðmælum til að fara með í ræðunni þá mundi ég frekar vilja að geta flutt þau og mína ræðu í birtu dags ef maður má leyfa sér auðmjúklega að koma þeirri ósk á framfæri við virðulegan forseta. En auðvitað kveinkar maður sér ekki undan því að tala inn í nóttina ef það er ákvörðun sem tekin er, þá virðir maður hana. En ég held að það sé almennt góð regla að ræða mál í dagsbirtu og það er ekkert í þessu máli sem kallar á að menn þurfi að vera hér inn í nóttina að ræða þau. Ég mundi því telja æskilegt að ljúka þessum fundi núna (Forseti hringir.) og menn mundu koma hér aftur saman galvaskir í fyrramálið.