144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:45]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta ekki vera eitthvert stórmál. Ég vil hins vegar geta þess að þegar ég kom hingað í hús taldi ég að ég mundi ekki flytja ræðu mína í kvöld, hafði einhvern veginn fengið þær upplýsingar að fundi yrði frestað áður en af því yrði. Ég fékk þær upplýsingar, reyndar ekki af forsetastóli heldur héðan úr húsinu áður en ég mætti á svæðið. Mér finnst mjög mikilvægt að farið sé eftir því sem er búið að úrskurða um á forsetastóli fyrr um kvöldið, að menn geti gert ráð fyrir því að það standi. En ég ætla ekki að gera það að einhverju stórmáli hvort ég flyt ræðu mína í kvöld eða í fyrramálið. Ég er gamall sjónvarpsmaður og í þeim bransa er nú stundum talað um „prime time“, svo ég leyfi mér að sletta, virðulegur forseti, en það er ekki beinlínis sá tími núna þegar klukkuna vantar tíu mínútur í tólf. Ég mundi frekar vilja flytja ræðu mína þegar meiri mannskapur er fyrir framan viðtækin.