144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég er einn þeirra þingmanna sem hafa beðið spenntir eftir því að fá að hlýða á mál Róberts Marshalls, geri með því þó ekki lítið úr því að ég er jafn spennt ef ekki spenntari að hlusta á ýmsar aðrar ræður sem hafa verið boðaðar í þessari umræðu og vonast til þess að umræðu verði fram haldið. Menn ætla ekki að halda áfram inn í nóttina heyri ég, en þá á morgun. Það verður fróðlegt að fá að eiga orðastað við þingmenn. Ég verð líka svolítið súr þegar því er lýst yfir að þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru í salnum séu ekki nógu merkilegir til þess að halda smá ræðu yfir. En ég ætla að enda ræðu mína á Gunnarshólma:

Skein yfir landi sól á sumarvegi

og silfurbláan Eyjafjallatind

gullrauðum loga glæsti seint á degi.

Við austur gnæfir sú hin mikla mynd

hátt yfir sveit, og höfði björtu svalar

í himinblámans fagurtæru lind.

Á ég að klára? [Hlátur í þingsal.]