144. löggjafarþing — 110. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:09]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég mundi auðvitað gera það. Á síðasta kjörtímabili voru fjölmargir virkjunarkostir settir í nýtingarflokk rammaáætlunar sem ég samþykkti, þó auðvitað með fyrirvara. Það voru virkjunarkostir á Reykjanesi sem mér var þvert um geð að settir yrðu í nýtingarflokk. En ég bar virðingu fyrir því ferli sem fram hafði farið og ég treysti þessu ferli og þessu verkfæri. Mér fannst rétt að við gerðum þetta með þessum hætti. Ég er þeirrar skoðunar að í gegnum tíðina hafi þessi málaflokkur einkennst um of af togi milli mismunandi hagsmunaaðila eða milli mismunandi hagsmuna, að menn hafi ákveðið að ráðast í að virkja við Kárahnjúka og í staðinn stofnað Vatnajökulsþjóðgarð og svo má áfram telja. Það er alltaf verið að togast á fram og til baka.

Ég hefði haldið að það væri eðlilegra að menn væru með mjög skýra löggjöf, náttúruverndarlöggjöf, sem kvæði einfaldlega á um það hvar mætti ráðast í svona framkvæmdir, hvernig ætti að taka ákvarðanir þegar það væri gert og menn mundu fara eftir því. En það er auðvitað þannig að þegar kemur að miðhálendi Íslands og svæðum eins og Torfajökulssvæðinu, þegar kemur að Þjórsá, þegar kemur að Þjórsárverum, Norðlingaölduveitu og þeim hugmyndum, þá er þetta ekki bara einkamál sveitarfélaga. Þetta eru gríðarleg víðerni, fjársjóðir sem við Íslendingar eigum öll sameiginlega. Menn hafa lagst hér í mjög flókna leiðangra til þess að leysa skipulagsmál undan sveitarfélögum þegar kemur að flugvöllum, en mér fyndist miklu frekar eðlilegra að menn mundu íhuga það í þessum efnum, þótt ég hafi nú ekki lagt í þann leiðangur. Aðalatriðið er það að við komumst sameiginlega niðurstöðu og virðum þá ferla sem við höfum ákveðið að eigi að gilda um þessi efni.