144. löggjafarþing — 110. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:14]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall prýðisgóða og innihaldsríka ræðu. Hv. þingmaður kom vel inn á það ferli sem ramminn er og það faglega verkfæri sem er svo mikilvægt fyrir okkur að styðjast við og með þeim orðum m.a. varðandi formkröfur að það þyrfti að taka ákvarðanatökuferlið út úr þessum sal.

Ég velti fyrir mér út frá því þeirri stöðu sem við erum í með málið þar sem meiningarmunur er svo mikill varðandi formið að hér er allt í hnút. Nú er það svo að gagnrýni hefur komið fram á formkröfurnar í þessu máli, m.a. frá Umhverfisstofnun sem talaði um að skýra þyrfti nánar formkröfur til breytingartillagna í meðförum þingsins. Ég vil spyrja hv. þingmann hver sé munurinn á því að ráðherra, verandi jafnframt þingmaður, geri slíkar breytingar að undangengnu umsagnarferli eins og kröfurnar eru, eða þingið sjálft? Ef við höldum áfram með þessa gagnrýni á formkröfurnar þá telur Umhverfisstofnun mikilvægt að farið verði yfir þá vankanta sem núgildandi lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, hafa að geyma gagnvart þessu. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér breytingar á formkröfum sem m.a. Umhverfisstofnun talar um?