144. löggjafarþing — 110. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:20]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög góð spurning hjá hv. þingmanni. Munurinn er sá að þegar ráðherrann var með þá virkjunarkosti hjá sér þá framkvæmdi hann svokallað 12 vikna umsagnarferli sem lögin gera ráð fyrir að verkefnisstjórn framkvæmi. Þær tillögur sem frá ráðherra komu hingað inn til fyrri umræðu, fóru til nefndar, fóru til umsagnar, fóru til umfjöllunar í fleiri en einni nefnd, og voru þess vegna miklu betur undirbyggðar og vandaðri en þær tillögur sem koma hér til einnar umræðu í þinginu í síðari umr. um þingsályktunartillögu. Það er munurinn á þessu tvennu. Það er stórkostlegur munur. Ég held að það liggi í augum uppi. Það er auðvitað ekkert hægt að koma í veg fyrir að pólitík ráðherra komi þar inn í, ráðherrar eru gjarnan pólitískir, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, en munurinn er sá að þá fara a.m.k. fram tvær umræður um þá virkjunarkosti sem hæstv. ráðherra leggur fram.