144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:06]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nú höfum við talað í ansi marga daga um rammann og þá atlögu sem stjórnarmeirihlutinn gerir hér að náttúruvernd í landinu. Við höfum óskað eftir því að leggja það mál til hliðar og leita sátta, setja málið í einhvern þann farveg að hægt verði að ræða hér önnur brýn mál sem brenna, held ég, mun meira á þjóðinni, því að það er ljóst að þjóðin borðar ekki rammaáætlun. Launin hækka ekki þó að rammaáætlun yrði samþykkt hér í dag. Það er alveg ljóst.

Virðulegi forseti. Hér þurfum við að ræða hvernig ríkisstjórnin hyggst koma að málum til þess að liðka fyrir kjarasamningum í landinu. Við þurfum að ræða aðför menntamálaráðherra að framhaldsskólakerfinu, þannig að ég held að sú dagskrártillaga sem hér liggur fyrir sé mun innihaldsríkari og vænlegri til þess að sýna fram á það sem er að gerast í samfélaginu.