144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég greiði þessari tillögu að sjálfsögðu atkvæði mitt og lít svo á að við séum hér að rétta meiri hlutanum björgunarhring, eins og það var orðað ágætlega áðan, til þess að koma sér út úr þeirri umræðu sem við höfum staðið í undanfarna daga, og fara að ræða þau mál sem fólkið í landinu bíður eftir að heyra hvernig standa á vegum stjórnvalda, þ.e. stöðuna á vinnumarkaði.

Að meiri hluti hv. þingmanna hafi fellt þessa tillögu þriðja daginn í röð, eftir því sem mér telst til, sýnir að meiri hlutinn vill alls ekki ræða stöðuna á vinnumarkaði. Hann er því mjög andsnúinn og ítrekar það. Og af hverju er það, herra forseti? Er það kannski af því að það koma engir lausnir frá stjórnvöldum? Af því að hún er orðin pínleg, sú bið sem við sjáum eftir öllum þeim útspilum sem stjórnvöld höfðu áður boðað inn í þessar viðræður? Er það ekki orðið dálítið pínlegt?

Meiri hlutinn vill ekki ræða þetta og mig undrar það ekki, en ég óska hins vegar hv. þingmönnum meiri hlutans til hamingju með að vera komnir á fætur og veit að við eigum góðan dag fram undan.