144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er kominn nýr dagur, bjartur og fallegur, og morgunsólin færir alltaf með sér möguleikana á því að bæta ráð sitt, vinda ofan af þeim mistökum sem maður hefur gert og reyna að hefja starfið á nýjan leik. Ég held að það sé einmitt það sem Alþingi þarf á að halda á þessum morgni, það er að skilja við þær römmu deilur sem verið hafa hér undanfarna daga og reyna að hefja starfið á nýjan leik á nýjum degi með nýjum viðfangsefnum. Þess vegna er þessi tillaga flutt. Hún er flutt til þess að menn geti rætt þörf mál sem samstaða er um að ræða hér í þinginu og mikilvægt væri að afgreiða til að efla frið og samstöðu í landinu sem ekki er vanþörf á og mun sannarlega verða til að greiða fyrir því að kjarasamningar náist. Þannig bjargast stærstu þjóðarhagsmunirnir sem núna eru í húfi. Það er það sem þjóðkjörnir fulltrúar eiga að einbeita sér að.

Ég segi já.