144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[10:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég gerði ítrekað athugasemdir við það í gærkvöldi að við værum að funda þriðja kvöldið í röð fram að og fram yfir miðnætti og vísaði til þess að hér væru nefndafundir kl. 8 og 8.30 á morgnana sem fólk þyrfti að mæta á og sinna.

Ég var á fundi umhverfis- og samgöngunefndar kl. 8.30 í morgun og þar var einn stjórnarliði, formaður nefndarinnar, Höskuldur Þórhallsson. Aðrir voru ekki úr stjórnarliðinu á þeim nefndarfundi fyrr en fór að líða verulega á fundinn, þá kom einn í viðbót. Fundurinn náði ekki einu sinni að verða löglegur.

Þetta er fólkið sem greiðir atkvæði með því ítrekað að tala ekki um það sem máli skiptir, sem greiðir atkvæði með því ítrekað að hafa kvöldfundi fyrir okkur hin, sem það mætir ekki á. Það situr ekki eigin kvöldfundi og mætir ekki á fundi í nefndum. (BirgJ: Þetta er hneisa.) Þetta er til skammar.