144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[10:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Jóni Gunnarssyni til upplýsingar þá snýst sáttatillaga stjórnarandstöðunnar hér í þinginu um það að stjórnartillaga ríkisstjórnar Íslands, flutt af umhverfisráðherra Framsóknarflokksins, fái samþykki í þinginu. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig það á að vera með einhverjum hætti ósanngjarnt af hálfu stjórnarandstöðunnar að vilja fá hér til afgreiðslu í þinginu óbreytta þingsályktunartillögu ríkisstjórnar Íslands og fá að greiða um hana atkvæði. Og fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar er sérstök ósk um að fá að greiða atkvæði með tillögu ríkisstjórnarinnar. Það er öll óbilgirnin, hv. þm. Jón Gunnarsson.

Nei, það er mála sannast að þessi ófæra nefndarmanna Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd er auðvitað orðin slík að þegar ég spurði hér á skiptiborðinu í gærkvöldi eftir viðveru þingmanna flokksins voru þrír af 19 í húsinu vegna þess að hinir 16 vilja ekki láta kenna sig við það klúður sem orðið er, vilja ekki vera í fyrirsvari (Forseti hringir.) fyrir það hér í þinginu og skildu þess vegna þessa þrjá nefndarmenn eina eftir hér í dag.