144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[10:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er sannfærð um að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafi áttað sig á tækifærunum sem í því væru fólgin að fá aukinn meiri hluta fyrir tillögu um að flytja virkjunarkost í nýtingu. Ég er sannfærð um að hann áttaði sig á hvað það væri mikils virði, bæði fyrir þá sem vilja nýta og fyrir þá sem vilja vernda, að fá hreinar línur og sátt í málið. Hann sannfærir hæstv. ríkisstjórn um það og málið kemur inn í þingið. Það er hins vegar meiri hluti atvinnuveganefndar sem spillir sáttinni og setur málið hér upp í loft. Það er þess vegna sem við erum hér og ég trúi ekki öðru en að forseti sýni nú röggsemi og taki á þessu máli.