144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[10:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Staða málsins er sú að hér kom fram þingsályktunartillaga umhverfisráðherra í haust sem leið, núna er kominn maí. Þessi tillaga fór í atvinnuveganefnd og fékk á sig allt aðra mynd. Hún gjörbreyttist, hún fimmfaldaðist, hún áttfaldaðist til að byrja með í munnlegri tillögu og svo hafa nefndarmenn verið að breyta því til og frá. Og hvað hefur gerst? Meiri hluti ríkisstjórnarinnar, forusta ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, tekur undir með forustu atvinnuveganefndar gegn sínum eigin umhverfisráðherra. Niðurlæging umhverfisráðherra Framsóknarflokksins er algjörlega söguleg. Ég spyr bara: Hvernig er umhverfismálum komið í höndum þessarar ríkisstjórnar og Framsóknarflokksins? Átti ekki Framsóknarflokkurinn einhvern metnað í umhverfismálum hér á árum áður með Steingrím Hermannsson og Eystein Jónsson og fleiri slíka? Hvar er metnaðurinn í umhverfismálunum? Er hann ekki til? Sjá framsóknarmenn sjálfa sig í þeirri stöðu núna að fylgja í blindni (Forseti hringir.) á eftir stóriðjuöflunum í Sjálfstæðisflokknum? Til hamingju með það.