144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[10:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Eitt jákvætt hefur verið við fundarstjórn forseta síðustu tvær vikurnar, það að fyrir alþjóð hefur verið auglýst dag eftir dag hvers konar kerfisvilla er í gangi á Alþingi þegar meiri hlutinn fer með 100% dagskrárvald og minni hlutinn hefur eina leið til að hafa áhrif á dagskrána, þá að stunda málþóf. Málþóf er kerfislægt vandamál. Það má leysa með því að þjóðin sjálf fái málskotsrétt, að minni hluti þjóðarinnar geti vísað málum til þjóðarinnar og stöðvað ruglið sem kemur frá þinginu. Þá verða menn að koma sér saman á Alþingi um eitthvað. Þótt þeir séu ekki alveg vissir um að þjóðin samþykki það geta þeir lagt það í dóm hennar. Ég var að tala við forseta Sviss rétt áðan. Þar er þessi lýðræðishefð orðin aldargömul og hún sagði afdráttarlaust að þetta yrðu áhrifin.