144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[10:59]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil gera orð hv. þingmanna Pírata að mínum og ítreka hversu mikilvægt það er að finna einhverja leið til að við byrjum að tala saman á þinginu. Ég hef ítrekað beðið um þetta. Það er ekki hlustað og það virðist enginn vilji vera til að ræða saman og finna sameiginlegar lausnir á þessu máli, og ekki bara þessu máli heldur öllu því sem er að gerast í samfélaginu. Mér finnst það mjög miður, virkilega miður.

Það sem við erum að upplifa hér er nokkuð sem stundum hefur verið skilgreint sem ofbeldi meiri hlutans og er ekki raunverulegt lýðræði. Lýðræði á að finnast í þingsal, á að finnast í þinginu þar sem við getum unnið saman þverpólitískt að mikilvægum málefnum er varða þjóðarhag. Ég hef ekki orðið vör við slíkan vilja síðan ég kom inn á þetta þing á þessu kjörtímabili og stef núverandi ríkisstjórnar virðist vera: Við gerum það sem við viljum því að við höfum (Forseti hringir.) meiri hlutann.