144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[11:00]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta mál er komið í harðan hnút og hann verður ekki leystur með því að freista þess að beita meirihlutavaldi í þinginu. Ríkisstjórn sem reynir að þröngva í gegn máli gegn sameinaðri stjórnarandstöðu sem byggir sinn málflutning á rökum, eins og gert er í þessu máli, og gegn mjög víðtækri andstöðu í þjóðfélaginu almennt rís ekki undir ábyrgð. Menn hafa nefnt hér málamiðlanir og ég tel að sú heppilegasta væri að skjóta þessu máli á frest. Það er ekki hundrað í hættunni þótt við afgreiðum þetta mál ekki, en ella gæti hið gagnstæða gæti verið upp á teningnum. Menn hafa einnig nefnt aðra málamiðlun, þá að taka Hvammsvirkjun til atkvæðagreiðslu og ber þá að gera skýran greinarmun á því að taka málið til atkvæðagreiðslu og því hvernig menn greiða atkvæði. Ég mun alveg eindregið greiða atkvæði gegn Hvammsvirkjun. (Forseti hringir.) Það verður ekki allt leyst með því að tala saman. Við höfum gagnstæð sjónarmið, en það verður margt leyst með því að virða lögformleg ferli og það er það sem ekki hefur verið gert í þessu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)