144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[11:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er alltaf óheppilegt þegar þingmenn misminnir og af því að formann atvinnuveganefndar misminnti nokkuð um eigin þingsögu er rétt að rifja upp að það er ekki þannig að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi hleypt öllum þingmálum til atkvæðagreiðslu. Þegar um hefur verið að ræða mikil grundvallaratriði sem snert hafa mikla grundvallarhagsmuni og prinsipp í huga þingflokks Sjálfstæðisflokksins, þar með talið nefndaformanna þeirra og annarra fyrirsvarsmanna í þinginu, eru þess dæmi að þeir hafi komið í veg fyrir að mál hafi gengið til atkvæða. Nýlegt dæmi er stjórnarskrármálið svo það sé bara nefnt.

Í annan stað verður að minna á það að í öðrum tilfellum hefur málum verið hleypt til atkvæða vegna þess að um hefur verið að ræða lagafrumvörp sem eðli máls samkvæmt ganga til Bessastaða til staðfestingar hjá herra Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, sem hefur málskotsréttinn til þjóðarinnar. Síðan hefur verið kallað eftir því að honum væri beitt. Því er ekki (Forseti hringir.) til að dreifa í þessu tilfelli þar sem um er að ræða þingsályktunartillögu og eina leiðin til að leysa þessa hnúta er sú að leiða þjóðaratkvæðagreiðslur í lög.