144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[11:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Einu sinni voru dæmdar óheyrilegar fébætur fyrir að mig minnir fingur eða einhvern hluta af útlim á manni sem hafði höggvist af. Af því tilefni var sagt: „Dýr mundi Hafliði allur, ef svo skyldi hver limur.“ Ég held að nú megi fara að heimfæra þetta upp á hv. þm. Jón Gunnarsson, dýr mundi hv. þm. Jón Gunnarsson allur ef hann stýrði hér öllu verklagi og réði öllum málum. Ég verð að lýsa aftur eftir því hvort ekki séu einhver skynsemis-, hófsemdar- eða raunsæisöfl til staðar í stjórnarmeirihlutanum eða baklandi stjórnarflokkanna sem gætu komið einhverju góðu til leiðar í þessum efnum. Það vekur mikla undrun, það fullkomna ráðleysi sem virðist ríkja í þeim herbúðum. Er hvergi neinn að hugsa af einhverri skynsemi um stöðu mála, hvorki innan þings né utan? Hvar er verkstjórnin í landinu? Er hún engin? Er ríkisstjórnin hvergi?