144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[11:17]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér finnst mjög alvarlegt að hér séu boðaðir fundir í nefndum um væntanlega mikilvæg mál og síðan mæta þingmenn meiri hlutans ekki á þessa fundi eða fundur er afboðaður af því að illa gengur að manna þá með þingmönnum meiri hlutans. Þeir hinir sömu þingmenn koma ítrekað í þingsal í stutta stund til að skipa okkur hinum til verka og mæta svo ekki í vinnuna. Hvers konar skilaboð eru þetta, forseti, út í samfélagið? Mundi maður kenna börnunum sínum svona verklag? Hér er að skapast algjört upplausnarástand í samfélaginu og þetta eru skilaboðin sem meiri hluti Alþingis sendir út í samfélagið. Ég held að þetta verði ekki til þess að liðka fyrir kjaradeilum, það verð ég að segja, forseti. Svona viðhorf til vinnunnar er ekki heilbrigt.