144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[11:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er leitt til þess að vita ef forsetadæmið er farið að ganga með vinnuhörku sinni svo fram af þingmönnum stjórnarliðsins að það er ekki hægt að draga þá upp úr bælinu á morgnana til að mæta í vinnuna til að fella enn einn daginn til viðbótar tillögu stjórnarandstöðunnar um að taka á dagskrá þau mál sem brenna á þjóðinni. Við erum að sigla inn í mjög erfitt ástand í samfélaginu. Það eru að bresta á verkföll og það sem er hvað markverðast tíðinda af Alþingi er að hæstv. forsætisráðherra sést ekki. Hæstv. fjármálaráðherra sést ekki. Þeir stýra engu að síður liði sínu til þess að fella hér dag eftir dag sanngjarnar tillögur um að Alþingi fái að ræða þann vanda sem er uppi í samfélaginu. Á meðan Róm brennur spila þeir ekki einu sinni á fiðlu, það heyrist hvorki hósti né stuna frá þessum herramönnum. Er nema von, herra forseti, að það sé einlæg en einörð krafa stjórnarandstöðunnar að þetta mál verði tekið af dagskrá og að í staðinn fari menn að ræða það sem máli skiptir?