144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[11:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að gera athugasemd, eins og svo margir aðrir hérna, við það að virðulegur forseti fresti fundi gagngert til að fá réttan meiri hluta inn í þing. Maður verður að spyrja með fullkominni virðingu fyrir þeirri persónu sem er virðulegur forseti hvort virðulegur forseti mundi gera hið sama fyrir minni hlutann. Það er eðlileg spurning með hliðsjón af málavöxtum hér á bæ, að í reynd ákváðu tveir tilteknir hæstv. ráðherrar í upphafi hver skyldi vera forseti þingsins og síðan var auðvitað formleg atkvæðagreiðsla um það í þingsal. Það er allt samkvæmt hefðum og venjum og lögum, en hins vegar komumst við ekki hjá því að velta fyrir okkur hversu hlutlaus fundarstjórn forseta getur orðið við það fyrirkomulag sem hér ríkir.

Nú hef ég ekki meiri tíma til að tala um þetta, virðulegi forseti, þannig að það bíður seinni tíma.