144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

störf þingsins.

[11:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Síðustu daga hefur undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta aðeins verið tæpt á þeim breytingum sem hæstv. menntamálaráðherra virðist vera að gera á menntakerfi landsins án þess að um það fari nokkur umræða fram á Alþingi. Nú bregður svo við að meira að segja menn eins og Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, lýsa yfir undrun sinni á því hversu lítil hin opinbera umræða hafi verið um þessar breytingar á framhaldsskólum landsins. Hann sagði á heimasíðu sinni í fyrradag, með leyfi forseta:

„Þetta eru stórpólitískar ákvarðanir um fjölmenna opinbera vinnustaði. Þær ganga ekki upp án samráðs og samvinnu. Buslugangurinn í kringum Fiskistofu og flutning hennar ætti að vera ráðherrum og ráðuneytum víti til varnaðar.“

Mig langar að bæta við að þetta snýst ekki einvörðungu um fjölmenna vinnustaði, og þá vil ég einnig taka með vinnustaði nemenda, heldur snýst þetta um framtíð okkar. Þetta snýst um það hvernig fólk, ungt fólk og vonandi fólk á öllum aldri, á að geta menntað sig til framtíðar. Kallað var eftir því í gær, þegar ákveðið var að í dag yrði sérstök umræða um þetta mál, að tíminn á henni yrði lengdur. Ég vil því segja að mér finnst ekki ganga upp þegar þingið tekur þetta mál til umræðu og ræðir það við hæstv. menntamálaráðherra að það fari einungis fram á hálftíma. Það þarf mun lengri tíma til þess að ræða þetta mál við hæstv. ráðherra.