144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

störf þingsins.

[11:30]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugann á afstöðu minni til einstakra mála í þinginu, en ég geri þá ekki ráð fyrir að mér nægi þær tvær mínútur sem ég hef hér til þess að fara yfir einstök mál. Notum tímann til þess betur síðar.

Hvað varðar afstöðu mína til þess sem er að gerast á þinginu núna held ég að ég sé á nákvæmlega sama stað og við öll sem sitjum í þessum sal. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki áður setið hér sem óbreyttur þingmaður og ég er hálfmiður mín yfir því að upplifa það sem ég upplifi á hverjum einasta degi, svo ég sé bara alveg einlæg úr þessum stól. Mér finnst vandamálið miklu stærra en þetta eina mál sem við höfum nú eytt mörgum dögum í að ræða. Mér hefur lengi fundist stjórnmálin verða að breytast og sú afstaða mín hefur ekkert breyst frá því ég fór úr borgarstjórn Reykjavíkur og kom inn á Alþingi. Þau breytast ekki nema við breytumst hér.

Mér finnst það mál sem við höfum verið að ræða hér að undanförnu bara endurspegla ákveðna átakamenningu sem ég held að þurfi að hverfa. Ég hef talað fyrir því í mörg ár, en ég skal líka viðurkenna, af því að hv. þingmaður spyr, að vonir mínar og væntingar til þess að ná árangri í þeirri baráttu hafa ekki aukist að undanförnu. Ég hef rekið mig á þann harða veruleika að raunveruleikinn er flóknari en draumurinn um að gera hlutina öðruvísi.

Ég held að til þess að þetta breytist hér, til þess að menningin hér á þingi breytist, verði eitthvað að breytast í hugsunarhætti okkar sjálfra. Við tökumst hér á dagsdaglega um hver gerði hvað og hver sagði hvað hvenær og hvers vegna. Það er myndin sem almenningur sér af þinginu, þess vegna stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, ágætu félagar, að þjóðin skilur ekki þingið. Það er ekki bara meiri hlutanum að kenna, það er heldur ekki bara minni hlutanum að kenna, það er við okkur öll að sakast. Ég get því tekið undir það og brýnt sjálfa mig og aðra í því eins og ég geri reglulega; stjórnmálin þurfa að breytast, þinghaldið þarf að breytast. Ef við ætlum að óska þess og vona að þjóðin taki mið af því sem við segjum verðum við að fara að segja það þannig að þjóðin skilji það.