144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

störf þingsins.

[11:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er sammála einu, ósammála öðru í annars ágætri ræðu hv. 1. þm. Reykv. s. Ég er sammála því að almenningur skilji ekki þingið og ég er svolítið sammála því líka að það sé þessum hv. þingmönnum að kenna, hinu háa Alþingi. Ég er hins vegar ósammála því að vandinn liggi í menningunni á hinu háa Alþingi. Ég er ósammála því að hann liggi í hugsunarhætti okkar. Ástæðan fyrir því að ég er ósammála því er sú að það virðist engu skipta hverjir eru við stjórn hverju sinni, kerfið virkar alltaf eins. Dýnamíkin sem ákvarðar ákvörðunarferlið hér er eins, óháð því hver er við völd hverju sinni.

Ef ég væri í hæstv. ríkisstjórn er ég ekkert viss um að ég gæti látið öðruvísi undir núverandi kerfi. Eins og hv. 10. þm. Reykv. s. sagði réttilega fyrr í dag er málþóf kerfislægt vandamál, það eru reglurnar hér á bæ sem eru vandamálið. Ein lýðræðislegasta, gegnsæjasta og málefnalegasta leiðin til þess að eiga við það vandamál þegar hið háa Alþingi verður óstarfhæft af einhverjum ástæðum er að gefa þjóðinni aukin völd til þess að grípa í taumana þegar við ráðum ekki við verkefnin einhverra hluta vegna, hvort sem það er okkur sjálfum að kenna, hugarfarinu, menningunni eða reglunum.

Það ætti að vera fyrsta forgangsverkefni hins háa Alþingis, meiri hluta og minni hluta, að efla lýðræðið í landinu, jafnvel þótt það væri bara til þess að bæta starfsaðstæður hér á bæ en einkum vegna þess að kallað er á það, fólk vill meira lýðræði og fólk getur fengið meira lýðræði. Það hafa að mínu mati aldrei verið betri aðstæður til þess að efla lýðræðið en nú og okkur ber skylda til þess að grípa tækifærið þegar það gefst.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.