144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

störf þingsins.

[11:39]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Átök eru ekki slæm. Stundum hefur mér fundist skorta á átök í samfélaginu, samfélagið hafi verið of sofandi þegar verið var að einkavæða samfélagsþjónustuna eða þegar stóriðjusinnar hafa farið sínu fram. Stóriðjusinnar sem vilja virkja í þágu stóriðjunnar og friðunarsinnar, eins og við erum í mínum flokki, geta ræðst við dögum og mánuðum saman án þess að ná niðurstöðu vegna þess að eðli máls samkvæmt eru þessir hópar á gagnstæðum meiði. Spurningin snýst um hitt, að finna þessum átökum farveg. Farvegurinn sem við höfum komið okkur saman um er rammaáætlun. Þá verður að virða ferli hennar til hins ýtrasta. Síðan kemur einhver niðurstaða, einhverjar ábendingar og tillögur, og við getum tekist á um þær. Við munum mörg hver ekki verða sammála um það hvort eigi að fórna Urriðafossi, alveg sama hvað við ræðum lengi um það, en við eigum að takast á um það. Vonandi vaknar samfélagið allt í slík átök og þá til varnar náttúru Íslands. Ég blæs á þessa átakafælni.

Við eigum að virða farveginn sem við höfum skapað okkur til þess að takast á og ræðast við. Um það snýst þessi töf á þingstörfunum nú. Okkur í stjórnarandstöðu finnst stjórnarmeirihlutinn ekki fara að þeim lögum og reglum sem við höfum sett okkur í því efni. Það er vandinn.

Síðan vil ég segja eitt, hæstv. forseti. Oft hafa mál frestast í þinginu vegna umræðna af þessu tagi. Ég nefni Ríkisútvarpið og átökin um það á sínum tíma. Ég fullyrði að frumvarpið hafi batnað við slíkan frest. (Forseti hringir.) Það gæti átt við í þessu efni líka.