144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

störf þingsins.

[11:44]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Friðhelgi einkalífsins er réttur hvers einstaklings. Jafnvel þingmenn og sveitarstjórnarmenn eiga þann rétt, þrátt fyrir að vera í almannaeigu. Sjúkdómar eru líka einkamál hvers og eins, geðfötlun eða gyllinæð er ekki forsíðufrétt dagblaðanna. Alkóhólismi er dauðans alvara og hann fellir fjölda fólks á hverju ári. Sjúkdómnum fylgir mikil skömm fyrir þann veika og fjölskyldu hans. Ég þekki sjálfur mjög þá skömm og óttann við viðurkenninguna en upprisunni fylgir mikið frjálsræði og spyrnan frá botninum og aukið endurheimt traust er gjöf nýs lífs í batanum.

Fjölmiðlar með DV í forustu hafa fjallað um drykkjuskap þingmanna og sveitarstjórnarmanna, síðast í dag. Ég þekki ekki sögu þeirra en trúlega hafa flestir skriplað á skötunni, aðrir ekki, eins og gengur. Við eigum öll okkar sögu og leyndarmál sem við viljum geyma í bakgarði hugans og láta vera þar.

Virðulegi forseti. Ég fordæmi fjölmiðla og samfélagsmiðla sem gengið hafa allt of langt í umræðunni síðustu daga og DV er að toppa í dag. Það er skammarleg umræða. Sú umræða hefur jafnvel náð út yfir gröf og dauða. Það er lágmarkskrafa að fjölmiðlar sýni einkalífi fólks virðingu.