144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

störf þingsins.

[11:46]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Íslenskt samfélag á í miklum vandræðum nú um stundir. Verkföll eru búin að standa yfir í margar vikur og fram undan eru verkföll tuga þúsunda manna ef ekki gengur að semja. En ríkisstjórn ríka fólksins sem við sitjum uppi með núna hefur ekki hugmynd um hvernig hún á að koma að eða leysa þessa flóknu stöðu. Áhersla hennar er að koma fleiri virkjunarkostum í nýtingu, selja náttúruna okkar, sem við teljum vera dýrmæta, á undirverði til erlendra stórfyrirtækja, skemma náttúruperlurnar og gefa þeim kynslóðum sem á eftir koma langt nef. Ekki nóg með það, hér er einnig lögð áhersla á makrílkvótann og fáir útvaldir fá hann. Því miður reyna þeir silfurskeiðardrengir sem hér fara fyrir hæstv. ríkisstjórn að koma þessum málum í gegn fyrir auðvaldið á meðan önnur mál sitja á hakanum: Margra vikna verkfall, heilbrigðiskerfið á erfitt, ekkert er vitað um hvað tekur við og hvað þessi aðferðafræði hægri stjórnarinnar mun kosta þegar upp verður staðið. Það er enginn samningsvilji.

Virðulegi forseti. Það sem mig langar að vekja athygli á er viðhorfið. Þegar læknar voru í verkfalli voru flestir sammála um að semja af því að það var svo mikilvægt, og ég tek undir það, en núna eru þetta að mestu kvennastéttir sem eru í verkfalli; geislafræðingar, ljósmæður, lífeindafræðingar, og þá er enginn samningsvilji. Þeir koma líka illa fram við ráðherrana sína, hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur og hæstv. ráðherra Sigrúnu Magnúsdóttur, reyna að stoppa mál eða fara gegn þeirra vilja. Ríkisstjórnin sem nú situr er mynduð til að passa upp á hagsmuni þeirra ríku og hún er hættuleg samfélagi okkar. Hér er verið að mylja niður heilbrigðiskerfið og einkavæða það. Hér er verið að tryggja að útgerðarmenn fái stærri hluta af kökunni og þeir ætla að tryggja að náttúruperlurnar (Forseti hringir.) verði eyðilagðar svo hægt sé að selja ódýra orku til auðvaldsins. (Forseti hringir.) Við þurfum að koma þessari ríkisstjórn frá fyrir okkur (Forseti hringir.) og fyrir komandi kynslóðir.