144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

störf þingsins.

[11:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Frétt í Morgunblaðinu í morgun varð hvatning fyrir mig til þess að koma hér upp. Fréttin er um líklega lækkun á tollum á fötum og skóm og vissu formanns Samtaka verslunar og þjónustu um að þessar lækkanir muni skila sér til almennings að fullu. Sá sem hér stendur er áfjáður í að lækka vöruverð til neytenda, hvernig sem það er gert, en ég viðurkenni að mér þykir ekki alveg tímabært að afnema tolla af fötum og skóm vegna þess að þær lækkanir sem þegar hafa verið gerðar eða ákveðnar af stjórnvöldum virðast ekki hafa skilað sér til almennings í þeim mæli sem stefnt var að.

Í því sambandi langar mig að vekja athygli þingheims og almennings alls á þskj. 1282, sem er skriflegt svar við fyrirspurn undirritaðs um áhrifin af fríverslunarsamningi Íslands og Kína sem tók gildi um mitt ár í fyrra. Í stuttu máli kemur þar fram að það virðist svo sem tolltekjur ríkisins hafi lækkað af innflutningi frá Kína um 68%. Það kemur líka fram að fjöldi þeirra vara sem almenningur hefur sjálfur keypt eða fengið sendar frá Kína hefur líklega þrefaldast. Það segir okkur að hér er búið að taka út úr jöfnunni allt nema álagningu kaupmanna. Ég á eftir að fara betur yfir það „grundiga“ svar sem ég er með í höndunum og draga af því ályktanir, en ég hvet fólk til þess að kynna sér þetta vegna þess að þetta er innlegg inn í þá umræðu að fara verður yfir þær lækkanir sem þegar hafa (Forseti hringir.) verið ákveðnar, að þær skili sér til neytenda skilyrðislaust.