144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

störf þingsins.

[11:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna aðeins í góða grein sem Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, skrifaði í Herðubreið. Þar kallar hann eftir því að við ræðum hvort virkjunarframkvæmdir eins og við ræðum hér þessa dagana, Skrokkalda og fleiri, séu í raun kjarabót fyrir almenning í landinu. Hann kemur þar inn á að söluverðmæti áls sé eitthvað yfir 200 milljarðar og þegar búið sé að greiða hráefniskostnað, rekstrarkostnað og laun standi einungis eftir 60 milljarðar. Af því fara um 17 milljarðar í laun, afgangurinn fer í fjármagnskostnað og hagnað eigenda, sem koma því oftar en ekki ósköttuðu úr landi í dótturfyrirtæki, þannig að þessir 17 milljarðar og kannski einhver viðbót vegna afleiddra starfa eru eina hlutdeild landsins í verðmætum þeim sem stóriðjan skapar. Það er einungis 1% þjóðartekna.

Þetta eru mjög sláandi tölur af því að talað hefur verið um að það sé svo brýnt að virkja vegna þess að það skili okkur, þjóðinni, svo miklum tekjum í kassann og væri hægt að nýta það til kjarabóta fyrir landsmenn. En því miður er það ekki svo. Eigum við að nýta náttúru okkar með þessum hætti, eyðileggja hana að mörgu leyti gagnvart ferðaþjónustunni og þeim sem nýta vilja náttúruna með öðrum hætti þegar það skapar ekki meiri arð til samfélagsins en fram kemur í þessari ágætu grein? Ég tel ekki rétt að fórna náttúruauðlindum að mestu leyti til erlendra auðhringja.