144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[11:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við höfum nú verið í tvær vikur að ræða breytingartillögu við tillögu umhverfisráðherra um rammaáætlun og við í stjórnarandstöðunni höfum freistað þess að leiða mönnum það fyrir sjónir að þetta sé mikill ófriðarleiðangur sem menn hafa lagt upp í og að það sé óráð að halda svona áfram því að við komumst hvorki lönd né strönd ef við höldum áfram á þessum nótum.

Nú gerist undir þeim dagskrárlið sem vorum að ljúka rétt í þessu, dagskrárliðnum störf þingsins, að forustumenn beggja þingflokka stjórnarflokkanna, bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, tala hér í sáttahug. Þær gera það dálítið hvor með sínu móti en báðar eru með þann tón í sínum málflutningi að það sé mikilvægt að setjast niður og leita leiðar til lausna. Önnur þeirra fjallaði sérstaklega um stöðuna á vinnumarkaði og mikilvægi þess að menn freistuðu þess þar að finna sameiginlegan tón, hin ræddi almennt um verklag, vinnubrögð, nálgun og það að hlusta hvert á annað. Ég fagna því sérstaklega, virðulegur forseti, að hér eru komin merki um að forusta (Forseti hringir.) beggja stjórnarflokkanna sé að sjá að sér og sé sammála okkur í stjórnarandstöðunni um að það sé rétt að leita sátta í þessu vandasama máli.