144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[11:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni þegar ég lít út um gluggann að það sé sennilega hæðarhryggur að ganga inn yfir landið, bjartur og fallegur dagur, sem sagt ekki lægð, ekki svona lægð sem stundum er sagt að geri menn geðstirða, hafi ýmis áhrif á sálarlíf í fólki og náttúruna alla. Það ættu sem sagt að vera kjöraðstæður til þess á þessum bjarta degi, það er hár þrýstingur yfir landinu, að hófsemdar- og skynsemisöfl í stjórnarmeirihlutanum tækju nú völdin í sínum herbúðum og hæfu samtöl við forustumenn stjórnarandstöðunnar. Þetta snýst svolítið um það hver ætlar að ráða ferðinni hjá stjórnarmeirihlutanum. Við hin gætum alveg tekið til við það á meðan að afgreiða nokkur ágreiningslaus mál þar sem fyrir liggur eitt nefndarálit frá sameinaðri þingnefnd. Við næðum örugglega saman um að nota tímann vel það sem eftir lifði þessa dags fram eftir kvöldi ef það yrði til dæmis ákveðið hér í hádegishléinu. Er þetta ekki hugmynd, herra forseti?