144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[11:58]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Mér er, eins og held ég öllum öðrum, farið að líða mjög illa yfir þeirri stöðu sem er í þinginu um þetta mál og sérstaklega þeim miklu deilum sem eru um breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar sem ég ætla ekki að ræða frekar. Ég hef skýrt afstöðu mína til þess í nefndaráliti og hér í ræðu.

Ég kem hingað til að taka undir með þeim þingmönnum sem tala fyrir því að þetta mál sé tekið af dagskrá, tekið til við önnur mál og þetta mál tekið til atvinnuveganefndar. Til vara vil ég segja frá því, virðulegi forseti, að ég hef með bréfi til formanns nefndarinnar, hv. þm. Jóns Gunnarssonar, óskað eftir því að atvinnuveganefnd verði kölluð saman til fundar þar sem verkefnisstjórn rammaáætlunar verði kölluð til fundar svo atvinnuveganefnd geti rætt við hana um þessa stöðu og stöðu rammaáætlunar almennt. Ég hef sett í bréfið til vara að ef ekki sé hægt að halda fundinn í dag megi halda hann á mánudag eða á reglulegum tíma okkar á þriðjudag. Það er liður í því sem ég vil halda fram hér, að það sé hægt að taka málið til þverpólitískrar umræðu og (Forseti hringir.) vinna að sátt þannig að þessu stóra deilumáli ljúki hér.