144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Það er fagnaðarefni ef hv. þingmenn, formenn þingflokka stjórnarflokkanna, lýsa vilja sínum til að skoða þessi mál. Eins og ég hef reynt að fara yfir og gerði áðan snýst ágreiningurinn um þetta mál um tvennt, annars vegar er hinn efnislegi ágreiningur sem kom fram í fyrri umr. um tillögu ráðherra, þ.e. sú ólíka sýn sem ólíkir einstaklingar og flokkar hafa á þessi mál almennt, og hins vegar er ágreiningur um formið. Það er hlutverk allra hv. þingmanna, þvert á stjórn og stjórnarandstöðu, að gæta þess að Alþingi fari að lögum og reglum, beiti góðum vinnubrögðum og fylgi þeim ferlum sem við höfum sjálf ákveðið að hafa. Um það hefur snúist sá mikli ágreiningur sem hér hefur verið uppi um fundarstjórn forseta. Það er það sem menn þurfa að útkljá áður en við getum síðan rætt málin efnislega, (Forseti hringir.) þ.e. hvort Alþingi verður ekki að taka af skarið með það að við þurfum að fylgja réttu formi, fara að lögum og reglum eins og gerð er góð grein fyrir í tillögu hæstv. umhverfisráðherra.