144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mér sýnist þetta vera að þokast. Það væri ágætt að gera hlé á þingfundi og fara yfir það hvenær atvinnuveganefnd geti fundað og forseti fundað með þingflokksformönnum. Það er ágætt að fólk telji að það sé jafnvel eitthvað að hreyfast en ég ætla samt að leyfa mér í þessari stemningu, herra forseti, að lýsa miklum áhyggjum af ástandi á vinnumarkaði. Þó að þingflokksformenn stjórnarliða tali hér blíðlega ætla ég ekki að láta af kröfu minni um að hæstv. forsætisráðherra flytji okkur, helst í dag, skýrslu um stöðuna á vinnumarkaði, hvaða greiningu hann sé með í höndunum og hvernig hann hyggist bregðast við þessu alvarlega ástandi. Síðan væri ágætt að hann kæmi í sérstaka umræðu við mig um afnám verðtryggingar sem ég hef beðið eftir mánuðum saman, eitt helsta kosningaloforð Framsóknarflokksins.