144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það var gott að heyra orð hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar (Gripið fram í.) sem ég skildi þannig að við ættum ekki að vera með neitt bráðlæti heldur ættum að setja þessa virkjunarkosti í hendurnar á verkefnisstjórn og vera bara róleg. Ég gat ekki skilið orð hv. þingmanns öðruvísi. Menn voru auðvitað með bráðlæti þegar þeir lögðu til þessa breytingartillögu og höfðu ekki þolinmæði meðan hún færi til verkefnisstjórnar 3. áfanga og fagaðilar mundu skila okkur niðurstöðu 1. september 2016. Mér fannst gott að heyra að hv. þingmaður er kominn á þá skoðun, ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi, að við ættum ekki að vera með bráðlæti. Ég tek undir það að núna eigum við að taka málið inn í atvinnuveganefnd. Ég tala þá sem varaformaður atvinnuveganefndar og mun leggja það til ef hv. (Forseti hringir.) þm. Jón Gunnarsson boðar ekki til fundar með verkefnisstjórn. Við getum boðað til fundar með þriggja daga fyrirvara sem verður þá eftir helgi.