144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Frekjukallafélagið kemur hingað glottandi í ræðustól, híar á hvern þann sem réttir fram sáttarhönd og slær á hana. Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson er orðinn eins konar útfrymi af formanni atvinnuveganefndar, hv. þm. Jóni Gunnarssyni, sem ekki nennir að sitja í þingsal heldur notar hv. þm. Pál Jóhann Pálsson sem vikapilt sinn til þess að ganga erinda og koma í veg fyrir það sem hver einasti maður sem tekið hefur til máls á þessum morgni vill, sem eru sættir. Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson hefur ekki bara tekið þátt í því að niðurlægja eigin ráðherra heldur hefur hann líka tekið þátt í því að fótumtroða viðhorf formanna tveggja þingflokka stjórnarinnar sem báðir hafa lagt fram óskir um sættir. Hv. þingmaður ætti að skammast sín og koma betur fram við þá sem hingað koma og reyna að stilla til sátta. Það er bara einn maður sem hagar sér eins og naut í (Forseti hringir.) flagi og kemur í veg fyrir að friður náist í þessu máli, það er þessi hv. þingmaður sem hefur afskræmt leikreglur lýðræðisins, brotið þingskapareglur og komið í veg fyrir það að menn eins og ég (Forseti hringir.) fái notið þess réttar sem þeir hafa til að fá að (Forseti hringir.) fjalla tvisvar sinnum um meiri háttar tillögur.