144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:35]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Það er alvarleg pattstaða í þinginu. Ég hef áhyggjur af því. Það er augljóst að báðar fylkingar eru fullkomlega sannfærðar um að þessi staða sé algjörlega hinum aðilanum að kenna. Hvorug fylkingin virðist vera tilbúin eða í það minnsta ekki stjórnarflokkarnir til þess að halda áfram með þann vanda og setjast niður til að ræða hann og reyna að leysa úr honum. Ég held að ef við í stjórnarandstöðunni og stjórnarflokkarnir værum hjón þá væri ekki ólíklegt að við yrðum skikkuð í einhvers konar hjónameðferð. Því miður höfum við ekki þá leið hér.

Hv. þingmenn tala um að það heyrist sáttatónn. Ég hef áhyggjur af því að sá sáttatónn felist í því að menn sættist á að hinn aðilinn sætti sig við það sem þeir vilja. Þetta er alvarlegt ástand. Ég hef áhyggjur af því, ég verð að segja það.