144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

breyting á starfsáætlun.

[14:08]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég saknaði þess í máli forseta að fá að vita hvað verður um þennan dag. Það er búið að setja á dagskrá hv. atvinnuveganefndar í fyrramálið það mál sem er á dagskrá hér, þ.e. rammaáætlun. Mér þykir það vægast sagt undarlegt ef við eigum að halda áfram að ræða það mál hér fram eftir degi vegna þess að þá erum menn ekki með þær upplýsingar sem talið er að kalla þurfi eftir á þeim fundi sem haldinn verður í fyrramálið, nema að þetta sé vísbending um að sá fundur sé sýndarmennska, að menn ætli sér ekkert með þann fund. Ef fundurinn á að skila einhverju gerum við hlé á umræðum um rammaáætlun í dag og leyfum þeim fundi að fara fram í atvinnuveganefnd á morgun og metum þá framhaldið. Annað eru vond skilaboð inn í þá vinnu.