144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

breyting á starfsáætlun.

[14:09]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er hárrétt hjá síðasta ræðumanni. Ef við höldum áfram að ræða rammann núna út daginn, sem við getum að sjálfsögðu gert, forseti hefur dagskrárvaldið, hvaða skilaboð eru það inn á fundinn hjá atvinnuveganefnd á morgun? Í rauninni sóum við degi því að það kemur ekkert nýtt fram, við sóum bara þessum eftirmiðdegi fram á kvöld í staðinn fyrir að ræða einhver önnur brýn mál og þau eru mörg sem væri hægt að taka til umræðu í dag og vera fram á kvöld. Við getum alveg verið fram á kvöld. Það væru líka góð skilaboð út í samfélagið að við færum í nafni sátta að ræða önnur mál. Við getum grætt tvennt með því að taka rammann af dagskrá, sent skilaboð til atvinnuveganefndar um að finna alvörulausnir í fyrramálið þegar við fundum og fara að vinna upp tapaðan tíma strax í dag. Ég hvet hæstv. forseta til þess að taka rammann af dagskrá, setja annað mál á dagskrá og senda skýr skilaboð í atvinnuveganefnd (Forseti hringir.) um að lausn skuli finna.