144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

breyting á starfsáætlun.

[14:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þessi orð hæstv. forseta. Þegar við óskuðum eftir því, fulltrúar minni hlutans í atvinnuveganefnd, að fá fund í nefndinni um það mál sem við ræðum hér og fá verkefnisstjórn inn á þann fund, töldum við að það væri hluti af einhverri lausn í málinu. Það getur ekki orðið ef við eigum að halda áfram að ræða málið undir sömu formerkjum hér, þá eru þetta bara einhver leiktjöld. Menn vilja bara klára þetta mál af því sagt var að minni hlutinn mundi óska eftir því sjálfur að fá fund og fengi hann eftir helgi ef formaður nefndarinnar mundi ekki kalla til fundar áður. Því miður gefur það okkur til kynna að ekki sé sú hugsun þar að baki sem við reiknuðum með að væri. Ég bið hæstv. forseta að íhuga vel hvort hann geti ekki núna með sinni ákvörðun breytt andrúmsloftinu gagnvart þessu máli þannig að okkur finnist við vera að leita lausna en ekki að þarna sé einhver sýndarmennska í gangi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)