144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

breyting á starfsáætlun.

[14:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er mjög hugsi yfir upptalningunni hjá forseta áðan um það hvernig framhaldið yrði eða réttara sagt yrði ekki eða mögulega kannski. Inni í upptalningu á því hvernig ekki verður staðið við dagskrána er lýst eins og einhverju samtali sem hefur átt sér stað við fjármálaráðherra um frumvörp sem ekki eru komin en eru mögulega á leiðinni í næstu viku. Ég hef ekki orðið vitni að neinu svona. Hvernig væri að hæstv. forseti tæki á málinu sem við erum að fást við núna með þeim myndarbrag að senda skýr skilaboð um að fundurinn í fyrramálið skipti einhverju máli? Það er verkefni dagsins í stóli forseta, ekki að velta fyrir sér hvað gerist hér í næstu viku með frumvörp frá fjármálaráðherra.

Virðulegi forseti. Það er verið að segja við okkur hér: Við ætlum að halda sýndarfund í fyrramálið í atvinnuveganefnd.

Þetta er eitthvert versta útspilið sem forseti hefur komið með í málinu frá því að það hófst.