144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[14:37]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er ekki ofsögum sagt að ringulreið ríki á Íslandi. Ríkisstjórnin er forustulaus, enginn hefur yfirsýn og enginn hefur forustu fyrir nokkrum hlut á Íslandi. Á fundi með þingflokksformönnum gerðist það áðan og úr ræðustól virðulegs forseta að starfsáætlun þingsins var líka hent. Starfsáætlun Alþingis er hér með orðin partur af ringulreið ríkisstjórnarflokkanna. Það er sorglegt að virðulegur forseti skuli hafa tekið þá ákvörðun að taka þátt í ringulreið ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í staðinn fyrir að standa vörð um Alþingi Íslendinga og möguleikana á því að við náum aftur einhverri sátt og jafnvægi í þingstörfin sem væri landi og þjóð til sóma. Hann er búinn að velja, hann valdi að henda starfsáætlun þingsins og sóma þess inn í ringulreið hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.