144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[14:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar upplausn ríkir í samfélaginu reynir sérstaklega á að forusta þingsins haldi vel utan um húsagann hér. Það er ekki hægt að gera eins og hér hefur gerst núna, að forseti þingsins gefist einfaldlega upp fyrir ofstopamönnum sem eru mestir hér í salnum, forustumönnum meiri hluta atvinnuveganefndar. Ég get ekki sætt mig við að hér komi yfirlýsing frá hæstv. forseta um að starfsáætlun sé ekki lengur í gildi og að ekkert komi þar í staðinn. Það er ekki í boði að þingið starfi án starfsáætlunar. Þann tíma sem ég hef setið á Alþingi hefur málum alltaf verið hagað með þeim hætti að ef starfsáætlun er ekki lengur í gildi gildir óformlegt samkomulag milli forustumanna þingflokka um fyrirkomulag þingstarfa. Það samkomulag þarf að liggja fyrir. Það er algjörlega ófært af hálfu hæstv. forseta að beygja sig fyrir ofbeldismönnunum í forustu atvinnuveganefndar og ætla að setja þingið allt í uppnám til að elta þá í þeirra furðulegu skógarferð í þessum málum.