144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[15:04]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill árétta það sem hann hefur áður sagt. Þegar svo hefur háttað til að ekki hefur verið hægt að standast starfsáætlun eru þess mörg dæmi að ekki hafi verið gefin út tímasett starfsáætlun. Forseti telur reyndar að það sé fremur regla en undantekning. Hins vegar vill forseti stefna að því að við reynum að ná utan um viðfangsefni okkar, en þá verða einhverjar forsendur að liggja fyrir. Það er óljóst varðandi þetta stóra deilumál og það er fyrst og fremst það sem við gerum okkur grein fyrir að er tappinn í þessu máli. Við þurfum að reyna að greiða úr því og um leið ná utan um það verkefni sem snýr að afgreiðslu annarra mála í þinginu. Þess vegna treystir forseti sér ekki til þess að gefa út tímasetta starfsáætlun sem hann hefur engar forsendur til að meta hvort hann getur staðið við.