144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[15:10]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það fer að verða dálítið gaman að þessari umræðu. Formaður atvinnuveganefndar sem endalaust hefur komið í ræðustól og talað um endalausar tafir og að ekkert hafi verið gert á síðasta kjörtímabili (Gripið fram í.) segir nú að fyrrverandi ríkisstjórn hafi verið stóriðjuflokkur og gripið til fjöldamargra framkvæmda. Þegar menn tala um að menn séu tvísaga held ég að hv. þingmaður ætti að skoða sinn málflutning.

Ég ætlaði aftur á móti að biðjast afsökunar á að hafa sagt við hæstv. forseta að hann ætti að stjórna nefndum þingsins og hvenær þær funduðu. Ég ætla að spyrja hæstv. forseta hvort hæstv. forseti ætli að leyfa formanni atvinnuveganefndar að stjórna þinginu. Hann kemur hingað og segir: Þetta mál verður á dagskrá, það verður ekki tekið af dagskrá. Þetta verður klárað. Við ætlum ekkert að slaka á.

Dagskrárvaldið er hjá hæstv. forseta. Ef hann heldur að þetta sé besta lausnin er það á ábyrgð forseta að dagskráin er sem hún er. Ég held að það sé það sem við erum að kalla eftir, að menn hafi nú vit fyrir þingmanninum og hæstv. forseti taki þetta mál af dagskrá, bíði eftir afgreiðslu nefndarinnar og við heyrum svo hvert (Forseti hringir.) framhaldið verður. Það er ekki hægt að segja við okkur að það eigi að halda fund en formaður atvinnuveganefndar segist vita að ekkert muni koma út úr honum.