144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[15:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það var aldeilis sáttatónninn í formanni meiri hluta atvinnuveganefndar áðan. Það skal ekki bregðast að ef hv. þm. Jón Gunnarsson leggur yfirleitt leið sína í ræðustólinn er það til þess að hleypa öllu í loft upp, til að gera hnútinn enn harðari. Ég held að hv. þm. Jón Gunnarsson slái út annan ónefndan hv. þingmann, friðarspilli sem ég ætla ekki að nefna því að hvítasunnan er fram undan. Forseti þekkir minn vilja. Ég reyndi á fundi í forsætisnefnd að ráða forseta heilt um það að í framhaldi af þeirri smáþíðu sem læddist inn í salinn fyrir hádegið væri skynsamlegt að hreyfa ekki meira við rammanum í dag og leyfa mönnum að fara heim eftir sérstöku umræðuna á eftir. Ef hæstv. forseti ætlar að halda áfram, þrjóskast við að fara inn í umræðuna eftir sérstöku umræðuna, bið ég forseta að hugleiða eitt. Hann mun fá þingheim aftur til starfa á þriðjudaginn í nákvæmlega sömu stöðu. Er það þess virði? Væri ekki hyggilegt að reyna að opna einhverja glugga og horfa út um þá yfir hvítasunnuhelgina?