144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[15:19]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég held að við vitum öll sem erum hérna inni að ef við ætlum að ná einhverri lausn í þetta mál þurfum við að tala saman, ekki úr pontu Alþingis heldur tala saman. Akkúrat núna er ekki nokkur maður að tala saman til lausnar á þessu máli. Það eru engin samtöl í gangi. Ég held að það sé algjört óráð að halda áfram að herða hnútinn því að það er auðvitað það sem gerist þegar maður heyrir hv. formann atvinnuveganefndar koma hingað og segja að engin rök hafi verið færð fyrir því að þetta séu slæm vinnubrögð og stangist á við lög um rammaáætlun. Hann gerir þar með lítið úr greinargerð hæstv. umhverfisráðherra í þeirri ríkisstjórn sem ég taldi hv. formann atvinnuveganefndar styðja þar sem kemur skýrt og klárlega fram að tillagan sem hæstv. ráðherra lagði fram er lögð fram nákvæmlega eins og verkefnisstjórn lagði til. Þó að hæstv. ráðherra hefði haft hug á því að leggja til fleiri virkjunarkosti treysti hann sér ekki til þess því að hann vildi ekki ganga fram hjá lögum um rammaáætlun. Þessu hefur hv. formaður atvinnuveganefndar (Forseti hringir.) enn ekki getað svarað. (JónG: Það er rangt.) Það að koma hingað og halda því fram að þetta plagg hafi ekkert vægi finnst mér ekki í lagi, herra forseti. Þessi samtöl hér úr pontu þjóna engum tilgangi til lausnar á þessu máli. (JónG: Þetta er rangt.) Þetta er rangt hjá þér.