144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[15:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þeir sem fara með völdin í þessum sal geta haft alla að ginningarfíflum — en ekki mig. Það var sérkennileg atburðarás í þingsal í morgun. Þá komu formenn þingflokka sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, lögðu áherslu á sættir og töldu hægt að ná þeim. Það kom í kjölfar þess að hv. þm. Ásmundur Friðriksson hefur talað á svipuðum nótum og ég um það hvernig megi lenda þessu máli. Þá reis upp frekjukallafélagið í þessum sal, híaði á þá sem töluðu í þessa veru, sögðu að menn skyldu bíða eftir því að fundurinn yrði haldinn og báðu menn um að sýna biðlund gagnvart því að einhver lausn yrði hérna.

Þá kemur að því að menn velti fyrir sér hvar valdið liggi í þessum sal. Það hefur komið í ljós að það er ekki hérna fyrir aftan mig og ekki er það hjá hv. þingmönnum. Tveggja manna frekjukallafélag er farið að stýra þessu þingi. Erum við þá ekki komin að þeirri niðurstöðu að þingið sé stjórnlaust?