144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fyrirkomulag náms til stúdentsprófs.

[15:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Ég er ekki sjálfur persónulega sjálfkrafa á móti öllum breytingum sem virðast kannski í fyrstu ekkert endilega æskilegar. Ég held að menntakerfið á Íslandi þurfi breytingar. Ég tel sömuleiðis óljóst hvaða breytingar það eru. Þess vegna þykir mér í raun og veru mikilvægast af öllu að það sé náið samráð við sem flesta aðila og að hlutirnir séu gerðir í sem mestri sátt.

Það virðist ekki hafa gengið eftir af einhverjum ástæðum. Kannski er það einhvers konar upplýsingaleysi eða samráðsleysi, ég þori hreinlega ekki að fara með það, en mér þætti vænt um ef hv. allsherjar- og menntamálanefnd gæti fjallað meira um þetta. Vitaskuld á hún við mikinn tímaskort að stríða eins og flestar aðrar nefndir, en mér hefur þótt vanta nánara samtal um þetta allt saman. Sömuleiðis má alveg nefna að námsmynstur fólks breytist með tímanum vegna þess að samfélagið breytist. Aðgengi að upplýsingum breytist, áhugasvið breytist, viðhorf til kennslu breytast. Það er ekki alveg rétt sem stundum er sagt, að stefna í menntamálum eða kennsluaðferðir hafi ekkert breyst í 2000 ár. Það er ekki þannig, þær breytast reglulega og þær þurfa að halda áfram að breytast.

Það sem kemur alltaf aftur upp og við erum ekki alveg nógu dugleg við að ræða, en hæstv. ráðherra hefur kvartað undan og að mínu mati með réttu, er einfalt peningaleysi. Mér finnst að við eigum að líta á menntamál almennt sem fræið að samfélaginu. Það hvernig fræið þróast og þroskast er nokkuð sem við þurfum síðan að ræða hér og þar og vissulega hefur hæstv. ráðherra alls ekki skorast undan því, hvorki hér á göngunum, í nefndum né annars staðar, og það er gott en lykilatriðið er, hvað svo sem við reynum, að það sé fjármagnað þannig að það gangi eftir í samræmi við væntingar okkar. Ég tel þar einn af veigamestu þáttunum sem við gleymum almennt að ræða hér.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.